Tyggjóklessur

Þegar snjó tók að leysa af gangstéttum í kringum skólann kom í ljós að tyggjóklessur lágu hér og þar. Okkur finnst þetta vera sóðalegt og ekki til prýði og jafnvel til skaða fyrir smáfuglana sem láta glepjast og halda að þarna liggi brauðmolar. Eftir að þetta var fært í tal á samverustund í gær komu nokkrir nemendur í 2. bekk og fengu hanska og plastpoka og týndu upp klessur í frímínútunum. Þrátt fyrir dugnað hjá nemendum er ljóst að af nógu er að taka og við eigum verðugt verkefni fyrir höndum. Á myndinni sem fylgir hér með má sjá hluta afrakstursins.

Umhverfis- og útivistardagar

IMG_8280Við ákváðum að líta við í Hrafnagilsskóla, því þar eru umhverfis- og útivistardagar í gangi. Okkur fannst þetta áhugavert og vildum fá að vita aðeins meira um þetta verkefni.

Við fengum að taka viðtal við Karl Frímannsson skólastjóra í Hrafnagilsskóla.

Lesa meira

Grænfáninn dreginn að húni

16. nóvember fékk Hrafnagilsskóli Grænfánann afhentan í 1. sinn og var hann dreginn að húni í upphafi hátíðarhalda skólans í tilefni af Degi íslenskrar tungu. Nemendur í umhverfisráði skólans komu með fánann í skrúðgöngu suður á skólalóðina þar sem aðrir nemendur, starfsfólk og gestir biðu eftir hópnum. Meðfylgjandi myndir eru af þessari athöfn.

Dagur ísl. tungu, 16. nóv. 2011 (5)Dagur ísl. tungu, 16. nóv. 2011 (6)Dagur ísl. tungu, 16. nóv. 2011 (8)Dagur íslenskrar tungu 2011_11_16 (10)Dagur íslenskrar tungu 2011_11_16 (6)Dagur íslenskrar tungu 2011_11_16 (15)

Duglegir nemendur í 4. bekk

Föstudaginn 14. október fóru nemendur í 4. bekk, ásamt Huldu umsjónarkennara, út að tína rusl. Þau voru mjög dugleg og komu inn með u.þ.b. 5 kg af rusli af skólalóðinni eftir 40 mínútna tínslu. Meðfylgjandi eru nokkrar myndir frá þessum degi.

Grænfáninn í Hrafnagilsskóla

 

Í vor sótti Hrafnagilsskóli um Grænfánann en það er viðurkenning sem Landvernd veitir þeim skólum sem uppfylla ákveðin skilyrði í umhverfisvernd. Í síðustu viku heimsóttu okkur þau Orri Páll og Gerður frá Landvernd og gerðu úttekt á því sem við höfum unnið að í umhverfismálum. Í dag fengum við svar frá þeim og þar stóð m.a.

„Í heimsókninni til ykkar fór það ekki milli mála að þið hafið unnið vel að umhverfismálum og mikið er nú þegar orðið fast í veggjum skólans.

Nú er mikilvægt að halda áfram á sömu braut, dýpka skilninginn og þora að takast á við ný þemu auk þess að halda áfram með það sem nú þegar hefur áunnist.
Hrafnagilsskóli hefur náð þeim góða árangri að fá Grænfánann afhentan í fyrsta skipti. Innilega til hamingju með það. Þið hafið óskað eftir að fá Grænfánann afhentan 16. nóvember 2011 og verðum við að sjálfsögðu við því. „

Við erum mjög stolt af þessum áfanga og stefnum að enn frekari vinnu í umhverfismálum.

Umhverfisráð Hrafnagilsskóla

Hrafnagilsskóli á grænni grein

Velkomin á umhverfissíðu Hrafnagilsskóla. Hér verður hægt að nálgast upplýsingar um það helst sem við erum að gera í umhverfismálum. Síðastliðinn vetur varð Hrafnagilsskóli aðili að verkefinu ,,Á grænni grein“ sem er aðdragandi að því að fá Grænfánann. Föstudaginn 7. október n.k. koma fulltrúar frá Landvernd til að meta stöðu umhverfismála í skólanum og kemur þá í ljós hvort við uppfyllum þau skilyrði sem til þarf til að flagga Grænfánanum.